Different, Not Less
Chloé Hayden
Þessi bók ber stílbragð höfundar síns, hinnar litríku, hispurslausu og úrræðagóðu Chloé Hayden. Hún var 25 ára þegar bókin kom út og hafði þá þegar sopið ýmsar fjörur, frá því að vera alvarlega veik og eiga erfitt uppdráttar í skóla og umheimi sem ekki skildi hana, yfir í að leika sem einhverf leikkona aðalhlutverk sem einhverf sögupersóna í Netflix- seríunni Heartbreak High. Hún glímdi við mikla erfiðleika sem barn, það tók furðulangan tíma að koma auga á þarfir hennar, fyrst með einhverfugreiningu og síðar með ADHD greiningu. Eftir því sem hún sjálf, sem og fólkið í kringum hana, skildi þarfir hennar og eiginleika betur, hefur leiðin legið upp á við. Það sem áður var talið hennar helstu veikleikar eru í dag þeir styrkleikar sem líf hennar og starf byggir á, en auk þess að vera leikkona starfar hún við að fræða fólk um einhverfu (og ADHD) og veita ráðgjöf.
Cloé lýsir bókinni sinni sem því sem hún, þá 13 ára gömul, hefði þurft að fá í hendurnar til að skilja líf sitt og hvað það þýðir að vera einhverf. Er það almennt mat einhverfra sem lesa bókina að þessi lýsing standi undir nafni. Bókin er skýr og skorinorð, skemmtilega skrifuð, og síðast en ekki síst gríðarlega góð handbók um flest ef ekki allt sem snýr að einhverfu. Bókin er byggð upp með vísan til Disney-ævintýra, þar sem aðalhetjan glímir við áskoranir með hjálp góðra liðsmanna og stendur uppi sem sigurvegari að lokum. Eins og Chloé sjálf segir: ef hamingjusamur endir er ekki kominn enn, þá er sagan ekki búin.
Þó svo bókin innihaldi sjálfsævisögulega drætti með dæmum úr lífi höfundarins, þá hefur hún mun víðari skírskotun og höfðar til alls þess fjölbreytileika sem einkennir einhverft fólk og einhverfurófið. Rétt er að taka fram að lesturinn getur vakið upp erfiðar minningar og tilfinningar hjá lesendum sem sjá sjálfa sig eða fólk sér nákomið í því sem fjallað er um, en eftir stendur að bókin er gríðarlega sterk heimild og fræðslurit um það hvernig það er að vera einhverfur - frá sjónarhorni einhverfra sjálfra. Svo vísað sé í titilinn, þá er alls ekkert verra að vera aðeins öðruvísi, nema síður sé.
Í bókinni er fjöldi praktískra ráða til að takast á við umheiminn sem einhverfur einstaklingur (og ekki síður til óeinhverfra um það hvernig koma skuli til móts við einhverfar þarfir), allt frá því hvernig það er að hafa blæðingar yfir í að finna sér stað á vinnumarkaði.
- Guðlaug Svala Kristjánsdóttir
Einhverfur höfundur
Tráma
Stimm